Hvað þýðir það að eiga trú á Jesú?

Margir tala um að „eiga trú á Jesú,“ en hvað þýðir það eiginlega? 

Biblían notar orðalagið „trú á Jesú“ þegar traust okkar er sett á hann sem frelsara okkar. Rómverjabréfið 3:22–23 segir „... Réttlæti Guðs fyrir trú á Jesú Krist öllum þeim til handa, sem trúa. Hér er enginn greinarmunur: Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð.“ Þegar við setjum traust okkar á Jesú, trúum við á hann og Guð gefur okkur réttlæti sitt.

Að eiga trú á Jesú þýðir að treysta honum. Einfaldlega. Algjörlega. Án fyrirvara. Eitt sinn, áður en Jesús læknaði tvo blinda menn, spurði hann þá: „Trúið þið að ég geti gert þetta?“ Þeir svöruðu: „Já, Drottinn,“ og hann læknaði þá samkvæmt trú þeirra. (Matteusarguðspjall 9:28–29). Mennirnir treystu einfaldlega krafti og gæsku Drottins og þeir fengu sjónina.

Þegar manneskja eignast trú á Jesú þýðir það að hann eða hún trúir því að Jesús er Guð í mannlegri mynd og treystir því sem Jesús hefur gert (dáið og risið upp). Þessi trú á persónu og verk Krists er það sem frelsar (sjá Rómverjabréfið 10:9–10; 1 Korintubréf 15:3–4). „Hver sem trúir, að Jesús sé Kristur, er af Guði fæddur“ (1 Jóhannesarbréf 5:1).

Jóhannesarguðspjall 3:16 segir: „Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“ Lykillinn er trú, sem svar við kærleika Guðs. Hver sem setur traust sitt á Jesú hefur fyrirheit um eilíft líf.

Ef við trúum ekki á Jesú erum við áfram í synd og komumst ekki í návist Guðs sem er á himnum, þar sem allt er fullkomið. Þegar við trúum á Jesú fáum við aðgang að föðurnum sem Guðs börn (Jóhannesarguðspjall 1:12). 

Að eiga trú á Jesú er að hafna öllum öðrum leiðum til hjálpræðis. Við getum ekki treyst á Jesú og eitthvað annað samtímis. Við treystum eingöngu á Jesú. „Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld sem getur frelsað okkur.“ (Postulasagan 4:12). Hjálpræðið er eingöngu í Jesú. Hann er eina leiðin (Jóhannesarguðspjall 14:6).

Ertu tilbúinn að setja traust þitt á Jesú? Treystir þú honum til að frelsa þig? Það er engin sérstök bæn sem þú verður að biðja. Hins vegar geturðu beðið núna eitthvað á þessa leið: 

„Kæri Guð, ég geri mér grein fyrir að ég er syndari og gæti aldrei komist til himins vegna eigin góðverka. Á þessu augnabliki set ég traust mitt á Jesú Krist, son þinn, sem dó og reis upp frá dauðum til að gefa mér eilíft líf. Ég treysti eingöngu á Jesú. Fyrirgefðu mér syndir mínar og hjálpaðu mér að lifa fyrir þig. Þakka þér fyrir að taka við mér og gefa mér eilíft líf.“ 

Hefur þú ákveðið að treysta Kristi vegna þess sem þú hefur lesið hér? Ef svo er, vinsamlegast smelltu á hnappinn „Ég vil fylgja Jesú“ efst á síðunni til hægri.

Grein var þýdd af Helga Hannessyni og tekin frá Gotquestions.org.

Previous
Previous

Er helvíti raunverulegt? Er helvíti eilíft?