Er helvíti raunverulegt? Er helvíti eilíft?

Það er athyglisvert að miklu hærra hlutfall fólks trúir á tilvist himnaríkis en trúir á tilvist helvítis. Samkvæmt Biblíunni er helvíti þó alveg jafn raunverulegt og himnaríki. Biblían kennir skýrt og greinilega að helvíti sé raunverulegur staður þangað sem hinir vondu/vantrúuðu eru sendir eftir dauðann. Við höfum öll syndgað gegn Guði (Rómverjabréfið 3:23). Réttláta refsingin fyrir þá synd er dauði (Rómverjabréfið 6:23). Þar sem öll synd okkar er í rauninni gegn Guði (Sálmur 51:4), og þar sem Guð er óendanlegur og eilífur, verður refsingin fyrir syndina, dauðinn, einnig að vera óendanleg og eilíf. Helvíti er þessi óendanlegi og eilífi dauði sem við verðskuldum vegna syndar okkar.

Refsingu hinna vondu eftir dauðann í helvíti er lýst í ritningunni sem „eilífur eldur“ (Matteusarguðspjall 25:41), „óslökkvandi eldur“ (Matteusarguðspjall 3:12), „last og ævarandi smán“ (Daníel 12:2), staður þar sem „eldurinn slokknar ekki“ (Markúsarguðspjall 9:44-49), staður „kvala“ og „elds“ (Lúkasarguðspjall 16:23-24), „eilíf glötun“ (2. Þessaloníkubréf 1:9), staður þar sem „reykurinn frá kvalastað þeirra stígur upp um aldir alda“ (Opinberunarbókin 14:10-11), og „díki elds og brennisteins“ þar sem hinir vondu eru „kvalin dag og nótt um aldir alda“ (Opinberunarbókin 20:10).

Refsing hinna vondu í helvíti er eins óendanleg og sæla hinna réttlátu í himnaríki. Jesús sjálfur gefur til kynna að refsing í helvíti sé jafn eilíf og lífið í himnaríki (Matteusarguðspjall 25:46). Hinir vondu sæta að eilífu heift og reiði Guðs. Þeir sem eru í helvíti munu viðurkenna hið fullkomna réttlæti Guðs og yfirráð Jesú Krists, frelsarans sem þeir höfnuðu (Sálmur 76:10 ; Filippíbréfið 2:10–11). Já, helvíti er raunverulegt. Já, helvíti er staður kvala og refsinga sem varir að eilífu og án enda. Guði sé lof að við getum komist undan þessum eilífu örlögum fyrir trúna á Jesú (Jóhannesarguðspjall 3:16, 18, 36).

Grein er þýdd af Helga Hannessyni og tekin af Gotquestions.org.

Next
Next

Hvað þýðir það að eiga trú á Jesú?